Verður 2014 heitasta árið hingað til út af El Niño?

9. Miðbaugur með og án El Nino

Nýlega var gefin út athyglisverð rannsókn þar sem nokkrir þýskir vísindamenn þróuðu nýja aðferð til að spá fyrir um veðurfyrirbærið El Niño (sjá útskýringu neðar) en hingað til hefur spátíminn verið ansi stuttur. Þeirra aðferð byggist á því að bera saman hitastig sjávarins við miðbaug, þar sem El Niño myndast, og hitastigið annarsstaðar í Kyrrahafi en um ári fyrir myndun El Niño verða þessi hitastig mjög svipuð. Með þessu lengja þeir spátímann úr 6 mánuðum í 12 mánuði sem getur skipt miklu á þeim svæðum sem fara verst út úr tengdum veðurfarsbreytingum. Með þessari aðferð fundu þeir út að El Niño mun líklega (þeir áætla 75 % líkur) myndast í lok árs 2014 en það gæti haft í för með sér óvenjumikinn hita víða um heim og jafnvel heitasta árið á jörðinni hingað til en El Niño er stærsta einstaka fyrirbærið sem hefur áhrif á veðurfarið. El Niño endist oftast í um eitt ár en getur enst í allt að tvö ár.

 

 

 

 

Hvað er El Niño?

9. El Nino viðburður

Nú spyr kannski einhver hvað El Niño sé. El Niño lýsir bæði aðstæðum í lofti og í sjó á svæðinu við miðbaug í Kyrrahafinu. Það nær yfir gríðarstórt svæði eins og sjá má á fyrstu myndinni hérna fyrir ofan. 

Venjulega blása staðvindarnir (trade winds) við miðbaug í Kyrrahafi, þar sem El Niño myndast, frá austri til vesturs svo að hlýr yfirborðssjórinn hleðst upp við strendur Indónesíu og er sjávarborðið þar um hálfum metra hærri en við vesturstrendur S-Ameríku. Við S-Ameríku streymir kaldur og næringarríkur sjór upp á yfirborðið djúpt neðan úr hafi en í þeim skilyrðum blómstrar dýralífið í sjónum og allir fiska sem róa þar.

 

Þegar El Niño á sér hins vegar stað þá snýst þetta við, staðvindarnir slaka á og hlýr sjór streymir í átt að S-Ameríku sem bælir þetta uppstreymi næringarríka sjósins og enginn fiskar þar sem rær. Þetta hefur einnig þau áhrif að lóðstreymi (convection) myndast í lofthjúpnum á þeim slóðum en það hitar upp andrúmsloftið. El Niño dregur nafn sitt af því að fiskimenn við vesturströnd S-Ameríku tóku eftir óvenjumikilli hlýnun sjávar laust eftir jólin eitt árið og nefndu þetta fyrirbæri því eftir Jesúbarninu en El Niño þýðir Barnið. Síðustu ár hefur það komið á 3-5 ára fresti.  

 

  

9. Áhrif El Nino um heiminn

El Niño hefur víðtæk áhrif í veðurfari jarðarinnar en í mjög stuttu og einföldu máli má sjá þau á myndinni hér til hliðar.

Ef nýjustu spár ganga upp gæti veturinn 2014-2015 verið sá heitasti sem mældur hefur verið hingað til á jörðinni. Það verður að koma í ljós hvort það gangi eftir en það verður spennandi að fylgjast með framgangi mála. 


Tíðarfar í janúar 2014

Í veðurfréttum í kvöld var ég með stutt yfirlit um tíðarfarið í janúar 2014 en kortin komu ekki nógu vel út þar sem hluti textans datt út fyrir myndina. Hér eru kortin hins vegar óbrengluð.

8. Meðalhiti í janúar 20148. Úrkoma og vindur í janúar 2014

 

 

 

 

 

 

Það sem helst var óvenjulegt við veðrið í janúar var hversu hlýtt var fyrir austan ásamt mikilli úrkomu. Úrkoman var að mestu rigning en enginn dagur var alhvítur á Dalatanga og m.a.s 28 dagar alauðir þar. Á Akureyri voru hins vegar allir dagar alhvítir en einungis 2 sólskinsstundir voru skráðar þar. Fyrir norðvestan og vestan var hins vegar óvenju úrkomulítið.

Annars má lesa ítarlegri greiningu á veðrinu í janúar í þar til gerðu yfirliti Veðurstofunnar sem er birt eftir hvern mánuð og má lesa hér


Skýstrókar verða til í eldgosi

Sinabunga eldfjallið á norður Súmötru, Indónesíu, hefur gosið síðustu mánuði en síðustu helgi tók það nýjan kipp en þá var neðangreint myndband tekið sem sýnir heitt gas og ösku leka niður með hlíðum fjallsins og myndaði þessa stórkostlegu skýstróka (tornadoes)

 

 


Veðurhátíðin Groundhog day eða Dagur múrmeldýrsins

6. Bill Murray í Groundhog day

Í dag, 2. febrúar, halda Bandaríkja- og Kanadamenn upp á svokallaðan „Groundhog Day“. Líklega kannast flestir hér á landi við daginn úr samnefndri kvikmynd þar sem Bill Murray leikur veðurfréttamann sem vaknar aftur og aftur á sama degi, 2. febrúar, í bænum Punxsutawney í Pennsylvaníu (í minningunni er þetta góð mynd – engu er lofað með stöðu mála í dag).

 

 

 

Uppruni þessara hátíðahalda er sá að í dag erum við stödd miðja vegu á milli vetrarsólstöðu (um 21. desember þegar dagur er stystur) og vorjafndægurs (um 21. mars þegar dagur er jafnlangur nóttu hvar sem er á jörðu). Myndin hér til hliðar útskýrir þetta nokkuð vel en Stjörnufræðivefurinn gerir það einnig vel hér.

6. Gangur sólar6. Veðurfræðingurinn Punxsutawney Phil að störfum

 

 

 

 

 

 

 

 

Í rauninni er þetta veðurhátíð en aðalmálið á þessum degi er að spá fyrir um veðrið næstu 6 vikurnar. Í hlutverki veðurfræðingsins er múrmeldýr eða groundhog á ensku en sagan segir að ef það sér skugga sinn þennan dag þá verður áfram vetur næstu 6 vikur en ef hann sér ekki skugga sinn þá skríður hann út úr greni sínu og það táknar að sumarið sé að koma. Því miður fyrir íbúa Punxsutawney þá sá hann Phil skuggann sinn í dag, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi, við lítinn fögnuð viðstaddra. Ætli þeir geti ekki huggað sig við að þegar NOAA bar saman spána síðustu 25 árin þá var hann Phil ekki að standa sig nógu vel og samkvæmt könnun sem Huffington Post gerði þá hefur hann einungis spáð rétt í þriðjungi tilvika. 

 

 


Skemmtilegar vefsíður

Það eru tvær síður sem ég hef sérstaklega gaman af þessa dagana en báðar snúa að því að skoða jörðina og veðrið á henni utan úr geimnum.

Fyrri síðuna má sjá hér en hún sýnir vindinn við yfirborð og í mörgum þrýstiflötum þar fyrir ofan (850, 700, 500, 250, 70 og 10 hPa). Hægt er að skoða vindinn fyrir 1 degi síðan, 3 klst og núverandi vind ásamt spánni fyrir næstu 3 klst og 1 dag fram í tímann. Síðan sýnir nú einnig hafstrauma allt að 1 mánuð aftur í tímann og 1 mánuð fram í tímann. Margar mismunandi kortavarpanir eru einnig í boði. Virkilega skemmtileg og vel gerð síða þar sem er alveg hægt að gleyma sér.

5.ewm5.ewm_expl5.ewm_ocean

 

 

 

 

 

 

 

Seinni síðuna má sjá hér en hún snýr að gervihnöttum en þar er hægt að skoða jörðina frá sólinni, tunglinu og ákveðnum hnitum að vild. Einnig er hægt að skoða skýjahulu, vatnsgufu, innrauð ský og margt fleira. Það er m.a.s hægt að velja einstaka gervihnetti til að skoða. Fullt af upplýsingum á einum stað.

5.earth5.earth_clouds5.earth_topo

 

 

 


Skemmtileg skil á vestanverðu landinu

Þeir sem staddir eru á vestari hluta landsins hafa eflaust ekki misst af snjókomunni sem skall á núna upp úr miðjum degi en það eru ansi skemmtileg og skörp köld skil sem komu með hana. Skilin koma úr vestri og fara fljótt yfir landið en í nótt verður mesta úrkoman farin úr þeim. Eins og sjá má á myndinni af vindstefnunni þá snérist stefnan alveg úr austanátt kl 13:00 í vestanátt kl 15:00, vindurinn tók hreinlega U-beygju. Einnig féll hitastigið töluvert hratt eða úr 4°C kl 13:30 í 0°C kl 14:30.    

4. Skil_30jan14_vindstefna4. Skil_30jan14_hiti

 

 

 

 

 

 

 

4. Skil_30jan14_snjor

 

Ef skoðaðar eru athuganir fyrir Reykjavíkurflugvöll (METAR skeyti) má sjá að veðrið snarversnar kl 14:20 þegar byrjaði að snjóa og skyggnið datt niður í 1.300m og hefur haldist undir 2.000m síðan (ritað klukkan rúmlega 17:00).

2014-01-30 17.00METAR BIRK 301700Z 27009KT 1200 R19/1500N SN SCT004 OVC010 M00/M01 Q0988 R19/590234
2014-01-30 16.00METAR BIRK 301600Z 26014KT 1300 R19/0500V1500N SN BKN005 OVC010 M00/M01 Q0989 R19/590234
2014-01-30 15.00METAR BIRK 301500Z 26016KT 1900 SN SCT004 OVC012 00/M01 Q0988
2014-01-30 14.21

SPECI BIRK 301421Z 19010KT 1300 R19/1500N SN FEW003 SCT005 OVC012 00/M01 Q0988 

Á næstu mynd má sjá hvernig spáin leit út fyrir klukkan 16:00 í dag með þessu úrkomubelti um vestanvert landið  og radarmyndin sýnir að þetta gekk ansi vel eftir. Að lokum leyfði ég listrænum hæfileikum mínum að njóta sín á myndinni lengst til hægri hér fyrir neðan en þar teikna ég suðaustan áttina sem er ríkjandi á landinu nema á vesturhlutanum þar sem er vestan átt.

 

4. Skil_30jan144. Skil_30jan14_radar4. Skil_30jan14_hiti_vindur_teiknað

Sjónvarpsveðurfræðingar

EME Vasaljós

Í þætti af Vasaljósi síðastliðinn laugardag var skyggnst á bak við tjöldin hjá sjónvarpsveðurfræðingi en Einar Magnús sýndi þáttastjórnendum hvernig spáin er gerð. Þetta var mjög skemmtilegt en ég held að uppáhaldið mitt hafi verið þegar þáttastjórnandi stóð fyrir framan kortið og spáði súld og skafrenningi, ekkert sól eða rigning takk fyrir! Það er framtíð í þessari greinilega.

 

 

 Á myndinni hér til hliðar má svo sjá herðatréð mitt eiga stjörnuleik á bak við Einar Magnús. 

 

Annars er gaman að segja frá því að eftir að Guðrún Nína Petersen bættist í hópinn þá er helmingur sjónvarpsveðurfræðinga á RÚV með doktorsgráðu í veðurfræði. Svo hátt menntunarhlutfall hlýtur að vera einsdæmi eða allavega fádæmi hjá sjónvarpsstöðvum. Held að RÚV og áhorfendur geti verið mjög ánægðir með þessa þróun J

 

 

Bestu kveðjur


Veðrið 2013

Veðrið 2013 var um margt skemmtilegt en hér fyrir neðan er athyglisvert myndband um veðrið á heimsvísu árið 2013 en árið var það fjórða heitasta frá upphafi mælinga, eða frá árinu 1880, samkvæmt NOAA.  



Einnig má fræðast um veðrið á Íslandi árið 2013 á vefsíðu Veðurstofunnar og í fréttatíma RÚV 1. janúar á tíma 11:30.

Bestu kveðjur


Skýjaáhugamannasíða

Ég hef lengi gengið með þann draum í maganum að stofna veðurblogg og nú loksins (loksins!) með nýfundnu frelsi hef ég tíma til að koma því í verk. Þetta er að mestu gert fyrir mig sjálfa til að halda utan um skemmtilegar greinar, myndir og fróðleik en ef einhver annar hefur áhuga á þessu er það frábært.

Allt á þessari síðu er á minni ábyrgð og kemur ekki neinum stofnunum við sem ég vinn hjá, hvorki Veðurstofunni, Flugskóla Íslands né RÚV.

Í fyrstu færslunni minni finnst mér tilvalið að benda fólki á uppáhalds skýjasíðuna mína, Cloud Appreciation Society, en þar eru stórkostlegar skýjamyndir. Þeir hafa einnig þróað app (viðbót á íslensku?), CloudSpotter app, þar sem hægt er að taka þátt í leik um að sjá sem flestar skýjategundir þar sem myndir eru teknar af skýjum og tegundin greind. Viðbótin er í samvinnu við NASA sem notar upplýsingarnar til að stilla CERES mælitæki sín sem eru á þremur gervitunglum og mæla skýjamagn á jörðu. Þessi viðbót inniheldur líka góðar lýsingar á helstu skýjategundunum og nokkrum veðurfyrirbærum.

cloudapplogo

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bestu kveðjur!

-Birta 


« Fyrri síða

Um bloggið

Birta Líf Kristinsdóttir

Höfundur

Birta Líf Kristinsdóttir
Birta Líf Kristinsdóttir
Veðurfræðingur og áhugamanneskja um veður
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • vetrarorð
  • Kl. 12 þ. 8. des - SYNOP
  • Kl. 09 þ. 8. des - SYNOP
  • Kl. 06 þ. 8. des - SYNOP
  • Kl. 03 þ. 8. des - SYNOP

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband